Ósmekklegt

Hlustaði á FM957 í gærmorgun. Þar kom upp umræða um bruna og nauðsyn þess að hafa reykskynjara í húsakynnum sínum og vísað í bruna undanfarna daga. Þessi umræða gekkst út á fíflagang, fliss og hlátur.

Mér er nokkuð sama ef fólk vill fíflast í útvarpi. En þessi umræða um mjög alvarlegt mál þar sem maður lét lífið er ekki til þess fallinn að gera að því grín og flissa og hlæja eins og smákrakkar í útvarpi.

Afar ósmekklegt hjá FM957 að mínu mati og þeim sem hlut áttu að máli til skammar.


Ekki sá eini

Slökkviliðið er ekki eini aðilinn sem hefur áhyggjur af agaleysi í þjóðfélaginu. Eitt af því mikilvægasta sem skapar aga hjá fólki er hæfileikinn til að setja í samhengi orsakir og afleiðingar. Það sem er að gerast í menningu okkar er að unga fólkið elst upp við afskræmdan veruleika og samfélagið í heild við alls konar afskræmd skilaboð ætla ég að nefna þrjú atriði í þeim efnum.

Í fyrsta lagi eru lífstílsauglýsingar stöðugt að segja okkur hvernig við eigum að haga okkur. Þar er ýtt undir hégómagirndina hjá fólki. Þeir sem eru flottir keyra um á svona bíl eða ganga í svona fötum eða eiga þetta eða hitt. Sífellt er verið að sýna okkur photosjoppað fólk lýtur út, á eitthvað eða gerir eitthvað sem kitlar hégómagirndina í okkur. Það er samt óraunverulegt að eignast allt sem við fáum skilaboð um að sé lágmarkseign til að vera góður og gildur þegn í þjóðfélaginu.

Í öðru lagi alast krakkar í dag stóran hluta dagsins frá foreldrum sínum. Uppeldi sem krakkar og unglingar fá frá foreldrum sínum þar sem þeim er kennt á lífið er á undanhaldi þar sem börnin eru minna með foreldrum sínum og þegar þau eru heima eru þau oft á netinu, að horfa á sjónvarpinu eða að spila tölvuleiki. Kennsla og reynsla foreldranna um orsok og afleiðingar og hvernig lífið gengur fyrir sig yfir höfuð miðlast því miklu síður til barna og unglina.

Í þriðja lagi tölvuleikirnir. Krakkar og unglingar eru að spila tölvuleiki sem eru úr takti við allan raunveruleika. Ofbeldi, íkveikjur, nauðganir og fleira og fleira er sjálfsagt mál og ef þú drepst byrjarðu bara nánast á sama stað aftur án þess að neitt sé athugavert. Því fleiri drepnir eru eða því meiri eyðilegging þýðir bara hærri verðlaun fyrir þann sem spilar. Sumir segja að þeir viti alveg muninn á raunveruleikanum og tölvuleik en ég spyr bara hvort það séu allir þannig. Munurinn á raunveruleikanum og sýndarveruleikanum er sífellt að minnka og skynjunin á muninum virðist sömuleiðis vera að minnka.

Það er mér því áhyggjuefni en það kemur mér samt ekki á óvart að agaleysið í þjóðfélaginu sé að aukast.


mbl.is Áhyggjur af agaleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru konurnar?

Fór í tíma í morgun upp í háskóla sem ber yfirskriftina "nýsköpun og gerð viðskiptaáætlana" sem er hið besta mál. Það sem vakti helst athygli mína er að það er enginn kvenmaður í þessu námskeiði. Ekki einn kvenmaður mætti í morgun.

Eftir alla þessa umræðu undanfarið um að konur eigi rétt á þessu og hinu og að konur eigi að standa jafnfætis öðrum átti ég von á að þarna væri einmitt tækifæri til að nýta. Þetta minnir mig svolítið á það þegar vinkona mín ætlaði á námskeið hjá VR í að semja um launin sín. Námskeiðið var fellt niður vegna ónógrar þátttöku. Á svipuðum tíma þrömmuðu þúsundir kvenna niður í bæ og kröfðust jafnréttis í launum. Það hafa verið haldin námskeið sem heita að ég held "kraftur í auði kvenna" og fleiri í þeim dúr. Geta konur ekki tekið þátt nema hlutirnir séu sérsniðnir handa þeim. Verður samfélagið þannig að konur og karlar lifa í aðskildum heimi í framtíðinni?

Það er ekki hægt að segja að þátttaka kvenna í gerð viðskiptaáætlana sé dómur yfir þeim en það vekur óneitanlega upp spurningar að á meðan háværar raddir um að konur sitji í stjórnum fyrirtækja þá ætli þær körlunum um að taka áhættuna á að stofna til þeirra.

Sú staðreynd að hver er sinnar gæfusmiður fæst seint samþykkt af fjöldanum en það er samþykkt af þeim sem stofna til eigin fyrirtækja og voru með mér í morgun. Ég vona að mætingin hafi verið óvenju dræm þar sem þetta var fyrsti tími vetrarins og einhverjar konur eigi eftir að láta sjá sig því það myndi gera samfélaginu gott að fleiri konur myndu stofna fyrirtæki á Íslandi.


Til hamingju sunnlendingar

Það veit ég að Örlygur á eftir að leysa þetta verkefni vel af hólmi. Hann er búinn að vera aðstoðarskólameistari í fjölda ára og leyst hlutverk sitt af mikilli snilld. Það veit ég sjálfur þar sem ég var nemandi í FSu.
Hef heyrt að við þessa ráðningu hafi draumur starfsfólksins orðið að veruleika og starfsandinn þar sé mjög góður.

Til hamingju sunnlendingar


mbl.is Skipaður skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð er að skúra

Í dag er innidagur. Rok og rigning sópar snjó og drasli burt. Það er ekki stætt úti. Þess vegna er ég og fjölskylda mín inni. Ætluðum reynda austur fyrir fjall í dag en það verður smá bið á því. Vorum að ræða þetta yfir hádegismatnum en sonur minn hafði nú lausn og skýringu á veðrinu.

Hann sagðist bara kalla á guð og segja honum að hætta að láta vera svona vont veður og öskraði svo eins hátt og hann gat til að sýna okkur fram á að hann gæti þetta alveg. Síðan sagði hann (og átti við veðurhaminn):

 

GUÐ ER AÐ SKÚRA


Gluggagægir

Fór með son minn á barnaskemmtun í dag. Þar komu tveir góðir jólasveinar og voru með betri skemmtiatriði en ég hef séð jólasveina gera áður.

Það sem vakti þó mestu kátínu gestanna var þegar krakkarnir áttu að giska á hvað þeir hétu. Þá kom lítil stúlka til hans og sagði hátt að hann héti gluggagægir. Aðspurð um hvernig hún vissi það benti hún á hann og sagði að það væri augljóst að jólasveinn með gleraugu héti gluggagægirGrin


Ekki gott að setja sér markmið

þessi ráðgjafi ætti ekki að setja sér markmið. Það vita allir sem hafa sett sér markmið að það er til lítils enda verði þeir sem setja sér markmið dæmdir til þess að ná minni árangri en aðrir. Við skulum frekar ekki gera neitt og ekki reyna að gera líf okkar betra á komandi ári. Best væri ef flestir myndu bara taka því rólega og sitja fyrir framan sjónvarpið þegar heim er komið úr vinnunni svo þeir þurfi ekki að leggja of mikið á sig í annars afar slæmu þjóðfélagi.

Ég ætla ekki að setja mér markmið fyrir árið 2008 um eftirfarandi atriði:

  • að klára námið mitt í maí 2008
  • að fá hærri laun
  • að vera meira með fjölskyldunni
  • að ná aftur "réttri" þyngd fyrir maímánuð (þyngdin verður ekki uppgefið hér)Wink
  • að borga niður skuldir

Augljóslega eru markmið sem þessi til þess fallin að mér líði verr á árinu 2008 en árið 2007 þannig að ég ætla að forðast að hugsa um þessa hluti.


mbl.is Áramóraheitin ekkert sniðug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutverk ríkisins

Ef hlutverk ríkisins er að hámarka efnahag og hamingju (sem er ekki sami hluturinn) landsmanna er sálfræðiþjónusta klárlega framfaraskref þar sem sálrænir kvillar og vanlíðan er orðið eitt helsta vandamál vestrænna ríkja.
mbl.is Samið við sálfræðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr sleði

Þá er sonur minn sem er 4ja ára búinn að fá sína fyrstu jólagjöf þetta árið. Við hjónin ákváðum að gefa honum sleða til að hann gæti rennt sér en vorum farin að hafa áhyggjur af snjóleysinu hér í borginni.

Það var því eftir pöntun að það kom rétt nægilega mikil snjódrífa um hádegið til að hægt væri að renna sér. Sonurinn stökk hæð sína þegar hann sá hvað var í pakkanum og kallaði og skríkti að hann væri búinn að eignast sleða. Síðan flögraði hann eins og fiðrildi í kringum mig meðan ég skrúfaði hann saman. Auðvitað fékk hann sjálfur að skrúfa nokkrar skrúfur eins og Bubbi Byggir gerir best og fannst honum hann verða helmingi klárari eftir þá reynslu.

Ég heyrði hjartsláttinn í honum langar leiðir meðan hann beið í ofvæni eftir að gripurinn væri tilbúinn. Á endanum brast honum þolinmæðin og þreif af mér sleðann áður en ég náði að festa síðustu skrúfuna og þóttist keyra um á flutningasleða sem hann kallaði krakkari. Þannig varð hann að prófa nýja tækið á heimilinu einn hring áður en ég fékk að klára.


Gleðileg jól

Ég óska öllum kærleika og friðar um jólin og um ókomna framtíð


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband