Færsluflokkur: Bloggar

Er farið að hitna undir Geir?

Það er eins gott að Ólafur Jóhannesson skili einhverjum árangri með liðið. Annars fer fólk að spyrja hvort það geti verið að yfirmaður þjálfarans sé ekki að standa sig. Það er reyndar mín skoðun að eftir slíkt langtímaslaktgengi þá er eitthvað meira að heldur en bara einn maður heldur hljóti það að hafa eitthvað með umgjörðina í heild að gera.

Ég óska þess svo sannarlega að Ólafur Jóhannesson geri góða hluti með liðið en ég verð samt að viðurkenna að ég er ekkert of bjartsýnn því ég held að vandamál liðsins liggi einfaldlega ekki hjá honum.


mbl.is Ólafur ráðinn landsliðsþjálfari í knattspyrnu til ársloka 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiriháttar furðulegt

Þetta mál er meiriháttar furðulegt og það er hver mótsögnin á fætur annari í þessu máli. Það að vinkona þeirra man allt í einu eftir því núna að það var maður sem hélt á barni klætt líkt og týnda stúlkan. Og það sem meira var að maðurinn kom frá íbúð þeirra.

Ef fréttirnar sem við fáum af þessu máli eru áræðanlegar, sem ég efast reyndar um, þá myndi ég spyrja þetta fólk hvort þau séu fávitar. Halló, maður með sofandi barn á öxl sér sem er klætt eins og stúlkan sem hvarf og setur það ekki í samhengi við það að það var barn sem hvarf úr umræddri íbúð.

Ég verð að segja það að þessi tímasetning og yfirlýsing er afar undarleg svo ekki verði meira sagt.


mbl.is Mynd birt af hugsanlegum ræningja Madeleine
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sölumenn og strætóbílstjórar

Það þarf annað af tvennu að koma til svo 10% af ökumönnum mengi 60% af heildinni. Annað hvort keyra þeir/þær mikið og eða ökutæki þeirra menga mikið. Það fyrsta sem mér dettur í hug er strætó, sölumenn, vinnuvélar og flutningabílar.

Ég veit ekki hvernig þessi skýrsla var gerð en það er talað um "alla ökumenn" og "öllum bílaakstri". Ef tekið er með í reikninginn vinnuvélar og akstur í atvinnuskyni skýrir þetta nú kannski heilmikið. Meirihluti strætóbílstjóra og ökumanna flutningabíla eru karlar. Þar er örugglega komið stór hluti af útblæstri og kílómetrafjölda í umferðinni. Mér finnst vanta í þessa skýrslu útblástur vegna flugsamgangna og skipa en þá myndi þetta hlutfall karla í útblæstri enn aukast. Þar held ég að skipaflotinn íslenski sé mjög mikill.

Það ætti því að vera forgangsmál mál að jafna kynjahlutfallið sem í brúnni á skipum landsmanna eins og alls staðar annars staðar í þjóðfélaginu og setja í sérstök lög að það verði að vera 40% hlutfall kvenna á skipum, strætóum og flutningabílum annars missi þau fyrirtækin og skipin sem standa að viðkomandi starfsemi starfsleyfi sitt eins og norðmenn eru að gera með stjórnir fyrirtækja.

Þá myndi mér heldur ekki líða jafn illa yfir því að ég er karlmaður sem ætti að skammast sín fyrir að blása slíku magni gróðurhúsalofttegunda að okkur stafar öllum hætta af.

Ég verð líka að viðurkenna að ég er kjötæta og stelst öðru hverju til að borða bæði pylsu með öllu, bjúgu og kjötbollur sem mér finnst vera lostæt, sérstaklega þegar ég þarf að elda sjálfur.

Síðan er ég líka í ræktinni en þar anda ég ótt og títt frá mér slíku magni af gróðurhúsalofttegundum að það er algjör óhemja að láta slíkt líðast. Þar sem ég er bæði stærri og þyngri en konan mín reikna ég með að hlutföllin þar séu svipuð og í viðkomandi rannsókn þó að það hafi því miður ekki verið rannsakað.

Það er kannski raunhæft að setja bara kvóta á fjölda karla í þjóðfélaginu til að stemma stigum við gróðurhúsalofttegundirnar. Raunhæfari leiðir væru þó að setja þá á danska kúrinn og kaupa undir þá yaris í staðinn fyrir BMW jeppana og banna þeim að fara að heiman á kvöldin.

Mér líður illa yfir þessu þar sem ég er karlmaður og ef þið hafið einhverjar hugmyndir hvernig ég get bætt mig og komist úr þessum hræðilega hópi sem mengar jörðina mína þá er ykkur velkomið að skrifa nokkur orð fyrir neðan þetta neyðaróp mitt.


mbl.is Karlar menga meira en konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sambærilegt við majónes

Ég las í fréttablaðinu í vikunni af blogginu hjá Þráni Bertelssyni að ónefndur alþingismaður hefði lagt að jöfnu óhollustu áfengis og majóness.

Mér er það ómögulegt að skilja þær umræður sem hafa verið um aukið aðgengi að áfengi. Eins og Þráinn Bertelsson benti á gera meðmælendur frumvarpsins sér ekki grein fyrir áfengisvandamáli þjóðarinnar. Oft heyri ég þau rök að það skipti engu fyrir rónana á hlemmi framboðið í matvöruverslunum. Rónarnir eru bara lítill hluti vandamálsins. Langstærstur hluti áfengisvandamálsins er inn á heimilum landsmanna og unglingadrykkja. Það er í besta falli hroki að halda því fram að aukið framboð á áfengi sé ekki til þess fallin að auka tíðni, alvarleika og ofbeldi sem hlýst af auknu aðgengi að áfengi. Misnotkun áfengis er staðreynd sem ekki er hægt að líta framhjá í okkar þjóðfélagi.

Heimilisdrykkja er þjóðarböl og því fylgir ofbeldi, nauðganir, vanræksla á börnum og óregla sem meðal annars leiðir oft af sér fíkniefnaneyslu. Unglingadrykkja skapar einnig ofbeldi, nauðganir óreglu, eykur umtalsvert hættu á fíkniefnaneyslu, unglingar flosna úr skóla og oft eyðileggur þetta líf þeirra til framtíðar. Ekki má gleyma því að þessari misnotkun fylgja sjúkdómar s.s. þunglyndi, skorpulifur og í sumum tilvikum dauði. Ótímabærum dauðsföllum gæti fjölgað um allt að 50 á ári.

Þegar verkjalyf sem innihéldu kódein voru gerð lyfseðilskyld fyrir nokkrum árum var tilgangur þess einmitt að takmarka aðgang og þar með neyslu þessara lyfja. Með því var verið að reyna að draga úr neikvæðum þjóðfélagslegum áhrifum ofnotkunar þessara lyfja.

Það er í besta falli hroki og afneitun að halda því fram að aukið aðgengi hafi ekki áhrif á neikvæða neyslu áfengis. Það er hins vegar í besta falli alvarleg eiginhagsmunapólitík að gera að jöfnu afleiðingar majónesneyslu og áfengisneyslu af þingmönnum og vanhæfni og þversagnakenndur málflutningur heilbrigðisráðherra að mæla með slíku frumvarpi.


mbl.is Velferðarráð leggst gegn frumvarpi um aukið frelsi í áfengissölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullkorn

ég verð að deila með ykkur nokkrum gullkornum sem 4ja ára sonur minn hefur látið frá sér fara síðustu daga.

Fyrir nokkrum dögum dó Siggi (lang)afi hans. Konan mín sagði varlega við son okkar að nú væri Siggi afi dáinn og farinn til himna. Sá stutti hugsaði sig andartak um og spurði svo "hvernig komst hann þangað".

Um daginn vorum við feðgarnir staddir á heilsugæslu og sáum stóra mynd af barni í maganum á mömmu sinni. Ég sagði honum að einu sinni hefði hann verið svona lítið barn í maganum á mömmu. Hann virti myndina fyrir sér í stutta stund og spurði mig svo af hverju barnið væri með band.

Í kvöld vorum við að borða pizzu við kvöldmatarborðið. Syni mínum þótti hún góð og tilkynnti mér að hann ætlaði að borða hana alla. Í eigingirni reyndi ég að draga úr þeim áhuga en fékk svar til baka, "krakkar og litlir krakkar springa aldrei, þeir stækka bara. Pabbar springa".

Ég sé það fyrir mér að þessi drengur verði hágæðavísindamaður, hann spyr réttu spurninganna til að fá staðreyndirnar á hreint, vill engan hálfkaraðan sannleik.


Pokinn er tilbúinn kallinn minn

Þá held ég að kornið sem fyllir mælinn sé komið. Martin Jol fær varla fleiri tækifæri með Tottenham á þessari leiktíð.


mbl.is Newcastle lagði Tottenham, 3:1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyrún Huld

Vinir mínir Ingvar Þrándarson og Magnea Gunnarsdóttir voru að skíra litlu stúlkuna sína í gær. Mjög falleg athöfn og fallegt nafn sem stúlkan fékk, Eyrún Huld.


Þetta er með ólíkindum

Það er alveg með ólíkindum að fólk skuli hegða sér eins og heilalausir hálvitar. Að láta sér detta í hug að vinna með ungabörn og finnast ekkert athugavert við það að þau séu í herbergjum sem reykt er í. Ég held að heilbrigði barna og heilnæmi umhverfi þess sé eitthvað sem dagforeldrar ættu að taka alvarlega en ekki loka augunum fyrir augljósum og alvarlegum staðreyndum um reykingar.
mbl.is Danskir dagforeldrar berjast gegn reykingabanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæti orsökin legið annars staðar?

Það er auðvelt fyrir Geir að segja þetta. Viðvarandi slappleiki liðsins virðist vera bundinn við marga þjálfara. Getur það verið að ábyrgð og orsök liggi annars staðar t.d. í umgjörðinni í kringum landsliðsins.

Ætli Geir hafi horft í eigin barm?


mbl.is „Þjálfarinn ábyrgur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Ingi var milli steins og sleggju

Já aumingja sjálfstæðisemnnirnir, það var farið illa með þá snökt snökt. Ef einhver á í REI í dag væri það nú bara hans hagsmunir að hlutur OR yrði seldur, það yrði þá bara kauptækifæri fyrir þá að fá aukinn hlut á kostakjörum og selja svo eftir 2-3 ár á miklu hærra verði. Það mætti því spyrja af hverju vildu sjálfstæðismenn selja strax?

Hvað Björn Inga varðar tók hann djarfa ákvörðun og stóð við sitt. Það er annað en Villi sem hætti við á miðri leið og neitað að hafa séð kaupréttarsamningana þrátt fyrir vitnisburð annara. Þá er auðvitað kominn upp trúnaðarbrestur því hann var að reyna að fegra sig á kostnað Björns Inga. Hvað átti Björn Ingi því að gera? Láta sjálfstæðismennina spila með sig og selja strax og sitja undir alvarlegum trúnaðarbresti gagnvart Villa. Ég er hræddur um að hann hafi verið kominn í afar erfiðar aðstæður og hafi þurft að velja milli þess að vera sjálfum sér trúr eða láta vaða yfir sig.

Sjálfstæðismenn geta engum öðrum en sjálfum sér um kennt hvernig fór fyrir þeim og voru teknir á sama bragði og sjálfstæðismenn tóku frjálslynda á eftir síðustu kosningar.


mbl.is Áhrifamenn í Framsókn hluthafar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband