Á Ísland að vera eitt kjördæmi

Á Íslandi ríkir ráðherraræði á kostnað þingræðis. Það eru því ráðherrarnir sem setja leikreglurnar í stað alþingis. Það staðfestir fjöldi samþykktra frumvarpa sem koma frá ráðherrum.

Í kosningum eru þessir aðilar sem verða ráðherrar yfirleitt efstir á listum flokkanna. Eftir því sem fleiri þingmenn eru í hverju kjördæmi fjarlægjast kjósendur þá sem eru ráðherraefni flokksins þ.s. þeir eru með “örugg” þingsæti. Í mínu kjördæmi, Reykjavík Norður þurfa stærstu flokkarnir væntanlega að fara niður fyrir 5% til að ráðherraefni þeirra lista detti út af þingi en ég sé það ekki gerast hjá stærstu flokkunum Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Ég er því ekki að kjósa um þá sem stjórna landinu í raun heldur óbreytta þingmenn sem sitja eins og unglingar á kassa í stórmarkaði og afgreiða þegjandi og hljóðalaust það sem fyrir þau er lagt.

Ég legg því til að fjölga eigi kjördæmunum í staðinn fyrir að fækka þeim.


Já hlutleysi

Ég skil ekki alveg þessa gagnrýni sem Framsókn fær í þessu. Við höfum haft nóg af klappstýrum í íslenskri pólitík og stjórnsýslu og fyrir mitt leyti er komið nóg af slíku. Ef þetta er viðleitni Framsóknar til að negla aðgerðirnar betur niður og gera þær líklegri til árangurs er til mikils unnið.

Framsókn er ekki bara að verja með hlutleysi því þeir verða að kjósa með frumvörpum ef stjórnarandstaðan kýs á móti þeim. Þetta er því ekki hlutleysi heldur eins konar já - hlutleysi og það gerir það ekki nokkur maður með viti að samþykkja fyrirfram eitthvað ef það er ekki ljóst hvað það er sem á að samþykkja.


Sigurhátíð Radda fólksins

Ég skil ekki þessa sigurhátíð hjá Röddum fólksins. Það er langt frá því að stjórnkerfi landsins sé komið í eðlilegt og ásættanlegt form. Það að ný ríkisstjórn sé í burðarliðnum eða hvort hún er hægri eða vinstri kemur því eiginlega ekki við að öðru leyti að sú síðasta virtist ekki vera tilbúin að gera nauðsynlegar breytingar til að axla ábyrgð og tryggja að hér verði skilvirkari og heiðarlegri stjórnsýsla.

Það á alveg eftir að koma í ljós hvað nýja ríkisstjórnin á eftir að gera, ég reikna ekki með neinum riddara á hvítum hesti en vona að það þokist eitthvað í áttina að betra þjóðfélagi með nýju fólki þó að sumir séu nýjir gamlir.


mbl.is Framsókn ver nýja stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvelt að bæta nytina í kúnum

Vísindin hafa komist að niðurstöðu. Það þarf ekki erfðabreyttar kýr af erlendum kynjum til að bæta nytina. Það er nóg að skýra þær réttum nöfnum og þá mjólka þær meira. Það er eitthvað sem segir mér að rannsókninni sé ábótavant eða við fáum bara að vita hálfan sannleikann í þessu.


Hvar varst þú?

Flestir þjóðverjar sem voru komnir til vits muna enn þann dag hvar þeir voru staddir þegar Berlínarmúrinn féll. Álíka atburðir hafa ekki gerst í Þýskri sögu, það var dagur fólksins, lýðræðis og frelsis. Á Íslandi eru miklir atburðir í aðsigi. Aldrei í sögu landsins hafa orðið álíka mótmæli og rambar landið orðið á barmi uppreisnar. Upp úr rústum landsins mun rísa Nýja Ísland.

Gleymdist að taka nokkrar mikilvægar ákvarðanir

Sú ríkisstjórn sem nú situr er búin að fá sitt tækifæri til að vinna að uppbyggingunni eftir efnahagshrunið í haust. Ég efast ekki um að þau hafa reynt sitt besta en þvi miður er það ekki nóg. Við fáum daglega fréttir af nýjum hneykslismálum og myndin verður skýrari. Blóðhundum var leyft að éta innviði landsins innan frá meðan stjórnvöld hugsuðu um eigin hégóma. Ég hef ekki heyrt af mörgum yfirheyrslum yfir þessum hundum en handtökuskipanir á venjulegt fólk sem getur ekki borgað af íbúðinni sinni er sjálfsagt mál. Hvað svo sem stjórnvöld eru búin að vera að gera þá ganga glæpamennirnir lausir, stjórnmálamennirnir hafa ekki gengist við neinni ábyrgð og eftirlitsaðilarnir halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það virðist hafa gleymst að taka nokkrar mikilvægar ákvarðanir.

Hvað ætlarðu að segja barnabörnunum

Það er auðvelt að týna sér í smáatriðum líðandi stundar, það er eðlilegt. En þegar frá líður munu barnabörnin spyrja hvað þú gerðir til að viðhalda lýðræði og réttarríki á Íslandi. Ok fínt að mótmæla en ég var ekki sammála aðferðinni og sat því frekar upp í sófa og horfði á  Leiðarljós. Já fínt hjá ykkur afi og amma, ég er rosalega stoltur af því að þið stóðuð með lýðræðinu upp í sófa. Ég er ekki viss um að það verði tekin sem gild afsökun þá að hafa ekki tekið þátt af því að það brotnuðu rúður. Það er meira ofbeldi og skemmdir um hverja einustu helgi niður í bæ en eru búin að vera í þessum “skríls- og ofbeldislátum” sem allir hneykslast á.

Hvernig verður þín minnst

Í sögulegu samhengi verður atburða þessara daga minnst sem tímans þegar íslendingar hristu af sér kúgun og áníðslu glæpamanna og spillingarafla. Dagurinn sem alþýðan tók völdin í sínar hendur og hóf að byggja landið úr rústum efnahagslegra hryðjuverka. Þjóðin mun mun minnast daganna sem við nú lifum sem einna merkustu tímum sögunnar. Þá verður ekki spurt að því hvernig fólkið sem mótmælti var klætt eða hvort fundarstjórum félli fólki í geð. Það verður ekki spurt um skrílslæti, jólatré, hægri- eða vinstri eða einstaka rúðubrot. Hef ekki heyrt slík smáatriði um neina byltingu. Nei, það verður talað um fólkið sem tók virkan þátt í þeirri byltingu og endurreisn landsins sem nú er að eiga sér stað. Fólkið sem fór niður á Austurvöll og lét heyra í sér, fólkið sem sýndi samstöðu, fólkið sem sagði hingað og ekki lengra.  Það eru engar afsakanir teknar gildar, ég hvet alla til að láta heyra í sér og heimta lýðræði fyrir þjóðina.
mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formaður VR

Er þetta svona fólk sem fólkið vill í stjórn VR? Takið eftir því hverjir vour í lánanefndinni.


mbl.is Milljarðalán án áhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósköp venjulegur morgunn

Vaknaði í morgun óvenjukrumpinn eftir lítinn svefn. Gerði allt þetta venjulega, fór í sturtu, borðaði morgunmat og tékkaði á nýjustu kreppufréttunum. Þar næst tékkaði ég á hver væri hæstur á spillingarskorinu og hvort einhverjir hefðu bæst á skrána. Þetta er búin að vera hörð keppni. Eftir að hafa lesið langan listann og skoðað nýjustu aðilana skutlaði ég konunni í vinnuna. Ræddum kreppuna og bölvuðum nokkrum útrásarvíkingum og pólitíkusum í sand og ösku. Á leiðinni í mína vinnu hugsaði ég svo aðeins meira um kreppu og spillingu en að lokum varð ég að loka á þessar uppbyggjandi fyrstu mínútur dagsins, ég var kominn í vinnuna.

Sem sagt, ósköp venjulegur morgunn.


Fyrsta fullorðinstönnin

Við uppgötvuðum að sonurinn er kominn með fyrstu fullorðinstönnina. Myndarlegur jaxl að koma upp úr tannholdinu. Móðir hans tjáði honum að þar sem hann er nú kominn með fullorðinstönn verði hann að bursta tennurnar líka á morgnana alveg eins og hann var vanur að gera á kvöldin. En núna verður hann að gera það sjálfur þar sem hann er kominn með fullorðinstönn.

Þegar ég kyssti hann góða nótt færðist allt í einu stórt bros yfir andlitið hans um leið og hann sagði mér að hann yrði að bursta tennurnar sjálfur á morgun á sama tíma og við. Með öðrum orðum, hann hefur færst upp um eitt þrep í áttina að verða fullorðinn.


Gleðileg jól

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári

Tilviljun að enginn svarar til saka?

Finnst engum undarlegt að enginn skyldi hafa verið látinn hirða pokann sinn eftir bankahrunið og einungis Íslendingar í rannsóknarstörfum? Rakst á þetta blogg hér og dæmi hver fyrir sig.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband