Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Misskilningur

Kannski er hjónabandið mitt byggt á misskilningiFootinMouth kannski stendur hún í þeirri trú að við séum bara góðir vinir. Í staðinn fyrir að fara með mér á ballið var hún kannski bara að biðja mig að skutla sér á balliðGasp

Verð að ræða þetta við konuna mína, ég er bara karlmaður og átta mig bara ekki á þessu


mbl.is Greina ekki á milli vinsemdar og daðurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakarameistarinn

Konan mín er að heiman í nokkra daga og það var kökubasar í leikskólanum í dag. Minn maður ætlaði nú ekki að klikka á þessu enda búinn að fá góðlátleg skot frá betri helmingnum um að mér tækist ekki að baka sjálfur köku fyrir basarinn.

Eftir að hafa keypt inn og komið syninum í háttinn tók ég til við að baka. En það gekk ekki vel og ég þurfti að henda deginu. Urrr...tók til allt sem þurfti í aðra tilraun og ætlaði að snara upp köku fyrir leikskólann um morguninn og leyfa syninum að njóta þess með mér enda finnst honum fátt skemmtilegra en að baka með mömmu sinni.

En í annað sinn tókst mér að eyðileggja þessa uppskrift við mikil vonbrigði hjálparkokksins. Sennilega er uppskriftin bara eitthvað skrýtin. Ég held ég haldi mig bara við einhver önnur heimilisstörf sem ég er betri í s.s. að skipta um perur.


Hvaðan koma skoðanir okkar

Sonur minn sem er 4ja ára (að verða 5) fékk nýja sokka. Honum þótti mjög vænt um þá enda voru þeir mjög fallegir. Bláir með hvítum röndum og smá glimmerblómi efst. Þegar móðir hans ætlaði að klæða hann í sokkana nýlega vildi þó þannig til að hann vildi ekki með nokkru móti fara í þá. Þegar hann var inntur eftir ástæðunni sagði hann að allir krakkarnir sögðu að þetta væru stelpusokkar.

Það er nefnilega það! Hvaðan skildu skoðanir okkar og fordómar koma?


Snemma byrjar það

Sonur minn sem verður 5 ára í næsta mánuði er farinn að svindla í spilum. Búinn að kenna honum spil sem heitir langavitleysa. Í dag langaði honum endilega að spila og hann fékk að gefa sjálfur. Ekki hafði ég eftirlit með því en viti menn. Þegar spilið byrjaði var hann af einhverjum óútskýranlegum ástæðum með öll  mannspilin og alla ásanaWhistling Hann var ekki lengi að fagna sigri yfir pabba sínum í það skiptið.


Einu sinni var

Var að skoða gamlar myndir af sjálfum mér. Barcelona ferðin mín þar sem ég var í gallabuxunum mínum sem ég kemst ekki lengur í. Sumarbústaðaferðin þar sem ég er ekki með neina ístru. Og myndin fyrir tvítugt þar sem ég var með alvöru magavöðva og stæltar hendur.

jonpall

Ég verð bara miður mín að horfa á sjálfan mig í svona formi. Það liggur við að ég fari snöktandi í rúmið yfir því hvernig ég er búinn að fara með sjálfan mig, kominn með ístru og aumar hendur.

feitur

Nú dugir ekkert annað en að taka sjálfan sig alvarlega í því að komast í form fyrir sumarið og komast aftur í gallabuxnurnar góðu.


Góður granni

Nýja nágrannarnir á neðri hæðinni virðist vera mikið sómafólk. Við ýttum og mokuðum hvorn annan út úr heimkeyrslunni í gærmorgun vaðandi snjó í blindbyl og látum. Að launum lánaði hann mér stórtæk verkfæri til að moka af bílnum mínum nefnilega eldhúskústinn sinn sem kom sér mjög vel enda leið mér eins og ég væri í snjóhúsi á hjólum (og með miðstöð) þegar ég settist inn í bíl.


Saltkjöt og baunir

Ég fékk sterk viðbrögð við bolludagsfærslunni minni, bæði heimafyrir og í vinnunni. Vinir mínir sem voru búin að bjóða okkur hjónunum í saltkjöt og baunir voru næstum hætt við af ótta við að ég myndi hrauna yfir matseldina þeirra á blogginu daginn eftir. Ég reyni að forðast persónulega dóma hérna en þess gerist hvort eð er ekki þörf því maturinn sem þau buðu upp á var alveg til fyrirmyndar eins og alltaf þegar þau hafa boðið okkur í matCool


Nammidagurinn litli

Í dag er (löglegur) nammidagur. Búinn að vera í Bootcamp síðustu daga og á laugardögum má ég hafa nammidag. Eftir hlaup og æfingar síðustu daga er ég hins vegar með svo mikla strengi að það er varla að ég nenni út í búð að kaupa mér nammi og annan ólifnað.

Ég lét þó verða af því og keypti mér fullan poka af alls konar góðgæti sem kætir bæði Karíus & Baktus sem og vigtina. Í hádeginu byrjaði svo ballið, pizza rann ljúflega niður hungraðan bóndason og því var skolað niður með alvöru sykruðu kóki.

Það vildi ekki betur til en svo að xxx pizzan fór öfug ofaní mig þannig að ég fékk illt í magann af þessu ógeði og gat ekki farið að gæða mér á annari fæðu fyrr en um kvöldmatarleytið. Þrátt fyrir góðan vilja verð ég að skilja ca helminginn af öllu sem ég keypti eftir til næstu helgarAngry

ég er illa svikinn og heimta endurgreiðslu á nammideginum mínum


Þegar barnið nær að brjótast út

Á hlaupabraut lífsgæðakapphlaupsins gefst ekki alltaf tóm fyrir fjölskylduna. Stanslaus vinna og nám taka því miður allan minn tíma núna á meðan konan og barnið bíða á hliðarlínunni eftir að hægist á kapphlaupinu í vor þegar ég útskrifast. Maður hefur heldur ekki tíma fyrir vini né áhugamál og ekki laust við að daglegt brosið víki stundum fyrir einbeitingarsvip og þreytu.

Það var mér því mikið gleðiefni og dýrmæt stund eftir ofsalegan lífsgæðasprett í þessari viku að fara í nokkura mínútna fótboltaleik með 4ja ára syni mínum. Barnið í mér blómstraði og við veltumst um gólfin af hlátri og leik. Veltum kertastjökum og jólaskrauti um koll í látunum svo að það lá við skömmum frá betri helmingnum. Síðan voru tennurnar burstaðar og lesin saga fyrir svefninn.

Þetta eru dýrmætu stundirnar í lífinu. Þessi litli hálftími er búinn að bjarga fyrir mér vikunni og gefa mér svo dýrmæta minningu og tíma með syni mínum. Það vottaði hvorki fyrir þreytu né einbeitingu í andliti mínu yfir námsbókunum í kvöld heldur er ég búinn að flissa og brosa eins og það væri eitthvert kitlandi í maganum á mér.

Við skulum ekki gleyma gullnu augnablikunum með fjölskyldunni þrátt fyrir annríki.


Guð er að skúra

Í dag er innidagur. Rok og rigning sópar snjó og drasli burt. Það er ekki stætt úti. Þess vegna er ég og fjölskylda mín inni. Ætluðum reynda austur fyrir fjall í dag en það verður smá bið á því. Vorum að ræða þetta yfir hádegismatnum en sonur minn hafði nú lausn og skýringu á veðrinu.

Hann sagðist bara kalla á guð og segja honum að hætta að láta vera svona vont veður og öskraði svo eins hátt og hann gat til að sýna okkur fram á að hann gæti þetta alveg. Síðan sagði hann (og átti við veðurhaminn):

 

GUÐ ER AÐ SKÚRA


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband