Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ís fyrir kók

Ég gerði samning við soninn í gær. Ef hann sæi mig einhvern tíman drekka Coca Cola myndi ég gefa honum ís.

Viti menn, þegar ég vaknaði í morgun var búið að hella kók í glas og á var miði sem sagði að þetta væri handa mér. Ekki nóg með það heldur var hann búinn að gera samning við mömmu sína um að láta sig vita og bera vitni ef hún yrði vitni að cola drykkju hjá mérSmile


Skódella í beinan kvenlegg

Eftir miklar vangaveltur hef ég komist að eftirfarandi erfðaniðurstöðu:

Skódella erfist í beinan kvenlegg!

Dóttirin er eins árs og þegar komin með skódellu

Mamman er með skódellu

Amman er með skódellur

Langamman er líka með skódellu

 

Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir.


Hrákan

Sonur minn er 7 ára og eldist hratt. Mér finnst unglingastælarnir koma heldur snemma en nýjasta töffarabragðið hjá honum er að vera sískyrpandi. Þegar ég fór með honum í göngutúr í sveitinni bara óvenjumikið á þessum ósið hjá honum og á endanum tók ég ákvörðun um að þessu yrði að linna. Eftir smá íhugun ræskti ég mig, hrækti í drullupollinn fyrir framan okkur og skammaði hann fyrir allar skyrpingarnar.

Fyrsta fullorðinstönnin

Við uppgötvuðum að sonurinn er kominn með fyrstu fullorðinstönnina. Myndarlegur jaxl að koma upp úr tannholdinu. Móðir hans tjáði honum að þar sem hann er nú kominn með fullorðinstönn verði hann að bursta tennurnar líka á morgnana alveg eins og hann var vanur að gera á kvöldin. En núna verður hann að gera það sjálfur þar sem hann er kominn með fullorðinstönn.

Þegar ég kyssti hann góða nótt færðist allt í einu stórt bros yfir andlitið hans um leið og hann sagði mér að hann yrði að bursta tennurnar sjálfur á morgun á sama tíma og við. Með öðrum orðum, hann hefur færst upp um eitt þrep í áttina að verða fullorðinn.


Krossari í 7 ára afmælisgjöf

5 ára sonur minn er forfallinn mótorhjólaaðdáandi. Þegar hann átti 5 ára afmæli áttum við leið í N1 upp á höfða fyrir tilviljun en þar eru mótorhjól. Það komst í kjölfarið ekkert annað að en að fá krossara í afmælisgjöf. "Nei ástin mín, það er ekki hægt að fara á krossara fyrr en maður er orðinn 7 ára" sagði ég til að kæfa málið í fæðingu. ÞAÐ VORU TAKTÍSK MISTÖK. Núna 8 mánuðum síðar hefur varla liðið sú vika að hann minnist ekki á hvað hann hlakkar til að verða 7 ára því þá fái hann krossara í afmælisgjöfPinch

Landbúnaðarsýningin á Hellu

Ég gat ekki látið landbúnaðarsýninguna á Hellu fram hjá mér fara. Ég og sonur minn sem er 5 ára kom auðvitað með mér enda með fáheyrða véladellu. Það var ekki erfitt að fá hann til að vera þægur kvöldið áður þar sem hann fengi að launum að fara með mér.

En það sem ég var mest hissa var hversu mikil þróun hefur átt sér stað á þessum 10 árum sem ég hefð átt heima úr sveitinni. Meðan 5 ára sonur minn hljóp hamingjusamur milli vélanna og dáðist að þeim átti ég í mestu basli með að átta mig á hvaða hlutverki sumar þeirra áttu að þjóna.

Það er alveg ljóst að ég er búinn að búa allt of lengi á mölinni, veit einhver um góða bújörð með kvóta til sölu?


Viltu vera feitur?

Ég þurfti að taka vinnuna með mér heim í dag. Svo sem ekki frásögu færandi nema ég ákvað í tilefnið þess að ég væri að vinna og konan að heiman að panta mér pizzu til að spara mér tíma og láta undan græðginni í mér.

Síðan sátum ég og sonur minn við matarborðið, hann borðaði jógúrt af því að honum finnst pizzan mín vond og ég borða hverja sneiðina af annari. En þegar ég byrja á þriðju sneiðinni finnst syni mínum ég vera farinn að verða helst til gráðugur. Pabbi, viltu vera feitur?

Ekki aðeins eyðilagði hann lystina hjá mér heldur hvarf ánægjan yfir þessari dásamlega óhollu matseld minni og ég sit hérna núna og velti því fyrir mér hvernig mér tókst að eyða 2.000kr til þess eins að fá samviskubit og henda stærstum hluta peningsins beint í ruslið.


Snemma byrjar það

Sat með 5 ára syni mínum á matsölustað þar sem ég keypti handa honum ís úr vél og mátti hann fá ótakmarkað úr vélinni. Þegar hann gat ekki klárað síðusta skammtinn dró ég hann að landi. En stuttu síðar vildi hann meira sem ég leyfði honum en sagði honum þegar hann gat ekki klárað ábótina að það mætti ekki fara oftar ef ég myndi draga hann að landi.

Hann horfði á mig eins og ég væri frá annari plánetu: "hefurðu einhvern tíman unnið hérna?"

Ég varð að viðurkenna að það hefði ég aldrei gert of fékk að bragði eftirfarandi setningu ásamt hneykslissvip: "þá veistu ekkert um það"


Af syni mínum

Vaknaði í nótt við það að sonur minn var lagstur þar  upp í. Ekki veit ég hvenær hann kom upp í en einhvern tíman um nóttina hefur hann líklega séð að ég væri í fasta svefni og laumast upp í rúm til mín.

Þegar við vöknuðum svo um morgunin var það fyrsta sem hann sagði (án þess að ég væri að biðja um útskýringar á þessu brölti) að hann hefði farið að sofa í rúminu sínu og vaknað hér. Hann hefði bara færst í nótt (og gaf frá sér furðuleg hljóð) og einhver galdrað hann yfir í rúmið mitt.

Já þannig er það, hann vildi bara hafa það á hreinu að hann bæri ekki neina ábyrgð á því að hafa verið þarna.


Ég get haldið á húsi með einni hend

Sonur minn vakti mig í morgun. Hann kom með þrjá bíla, spiderman og leðurblökubíla og vildi endilega sýna mér hvað þeir væru flottir. Það var skemmtilegt spjall. Yfir morgunmatnum fékk ég svo yfirlýsingu frá honum að hann gæti brotið járn og haldið á húsi. Já og svo kom að hann gæti haldið á húsi með einni hend og staðið á einum fæti. Þar sem hann skynjaði einhverjar efasemdir í andlitinu á mér þá sýndi hann mér bara hvernig hann færi að því, stóð á einum fæti með aðra hendina upp í loft eins og hann héldi á húsi. Það skortir ekki sjálfstraustið á þeim bænum.

Síðar í dag fór hann í 5 ára skoðun. Honum hlakkaði bara til að fá hreystisprautu hjá lækninum og leyt á þetta sem eins konar viðurkenning á því að hann væri orðinn 5 ára. Hann hlakkaði bara til. Hann kveið sprautunni ekki neitt, ekki eina sekúndu en kipptist aðeins til þegar hann var stunginn en þrátt fyrir það hélt hann pókerandlitinu alveg kúl á því. Hann vildi nú ekki láta líta út fyrir að hann væri eitthvað annað en 5 ára stór strákur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband