Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Gluggagægir

Fór með son minn á barnaskemmtun í dag. Þar komu tveir góðir jólasveinar og voru með betri skemmtiatriði en ég hef séð jólasveina gera áður.

Það sem vakti þó mestu kátínu gestanna var þegar krakkarnir áttu að giska á hvað þeir hétu. Þá kom lítil stúlka til hans og sagði hátt að hann héti gluggagægir. Aðspurð um hvernig hún vissi það benti hún á hann og sagði að það væri augljóst að jólasveinn með gleraugu héti gluggagægirGrin


Nýr sleði

Þá er sonur minn sem er 4ja ára búinn að fá sína fyrstu jólagjöf þetta árið. Við hjónin ákváðum að gefa honum sleða til að hann gæti rennt sér en vorum farin að hafa áhyggjur af snjóleysinu hér í borginni.

Það var því eftir pöntun að það kom rétt nægilega mikil snjódrífa um hádegið til að hægt væri að renna sér. Sonurinn stökk hæð sína þegar hann sá hvað var í pakkanum og kallaði og skríkti að hann væri búinn að eignast sleða. Síðan flögraði hann eins og fiðrildi í kringum mig meðan ég skrúfaði hann saman. Auðvitað fékk hann sjálfur að skrúfa nokkrar skrúfur eins og Bubbi Byggir gerir best og fannst honum hann verða helmingi klárari eftir þá reynslu.

Ég heyrði hjartsláttinn í honum langar leiðir meðan hann beið í ofvæni eftir að gripurinn væri tilbúinn. Á endanum brast honum þolinmæðin og þreif af mér sleðann áður en ég náði að festa síðustu skrúfuna og þóttist keyra um á flutningasleða sem hann kallaði krakkari. Þannig varð hann að prófa nýja tækið á heimilinu einn hring áður en ég fékk að klára.


Búinn að kaupa jólagjafir

Jæja, ég er búinn að kaupa allar jólagjafirnar. Ákvað að taka bara á því og keypti allt sem kaupa þurfti í gær og í dag. Mikill léttir svona áður en lokatörnin í skólanum byrjar að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að vera út úr stressaður og týndur í einhverri þvögu korter í jól.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband