3.12.2009 | 16:39
Drepum dýrin
Það væri auðvitað stórkostlegt fyrir loftslagið að við gerðumst öll grænmetisætur og dræpum húsdýrin. Það myndi verða þess valdandi að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 10-15% skv þessari frétt. En af hverju borðum við ekki bara grænmeti fyrst það er svona skynsamlegt? Jú það er af því að við erum alætur og borðum kjöt eins og annan mat og ólíklegt að við eigum eftir að þróast svo hratt að okkur hætti að langa í kjöt á næstu árum.
Það væri miklu nær að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að nýta úrgang frá matvælaframleiðslu t.d. losun metans í eldsneyti á bíla. Ekki aðeins myndi það draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði heldur myndi það draga úr notkun jarðefnaeldsneytis sem blessaður kallinn notar á einkaþotuna sína.
Að lokum legg ég til að bítillinn haldi tónleikana heima hjá sér og sendi þá út á netinu eða í sjónvarpi, það myndi spara eldsneytið á einkaþotunni og akstur tónleikagestanna þar sem þeir gætu horft á tónleikana heima í stofu.
Vill að fólk sleppi kjöti einu sinni í viku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Umhverfismál | Breytt 4.12.2009 kl. 08:49 | Facebook
Athugasemdir
Gróðurhúsamenn trúa því m.a. að meint aukning koldíoxíðs (nú 0.038% gufuhvolfsins) um 0,010% muni stefna jörðinni og mannkyninu í glötun. Því er haldið fram, að það hafi verið 0.028% fyrir iðnbyltingu, og þessi fáránlega litla aukning sé nú einhvers konar "ógn" við allt líf á jörðinni. Um þetta snýst málið. Ótrúlegt, en satt.
(Raunar er ég alls ekki viss um að tölur um koldíoxíð fyrir iðnbyltingu séu fyllilega áreiðanlegar).
Annars er ég nýbúinn að skrifa langa grein um þetta undarlega mál, sem er á vefsíðu minni.
Vilhjálmur Eyþórsson, 3.12.2009 kl. 16:55
Kæri Vilhjálmur
Aukning koltvíildis í andrúmsloftinu úr hlutfallinu 0.028% í 0.038% er ekki 0.010% eins og þú heldur fram. Aukningin er nær því að vera 30% sem er ekki fáránlega lítil aukning. Hvort tölur fyrir iðnbyltinguna eru áreiðanlegar eða ekki ætla ég ekki að segja, en aukningin hefur verið stöðug frá því um miðja 20. öldina þegar áreiðanlegar mælingar hófust.
Og ég ætla ekki heldur að segja neitt um ógn við allt líf á jörðunni, þar sem spá þarf fyrir um kerfi sem er gífurlega flókið og fjöldi þátta.
Sem skynsamur einstaklingur segi ég samt að fólk ætti að líta í eigin barm og reyna að draga úr neyslu eins og það getur. Það hefur nefnilega lengi verið vitað að nýtanlegar auðlindir jarðarinnar eru endanlegar og því rétt að fara sparlega með þær svo komandi kynslóðir hafi eitthvað að moða úr.
Gulli (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 18:11
Ég nenni ekki að hártogast um hvað aukning úr 0.028% í 0.038% sé mikil. Kjarni málsins er, að hér er um að ræða svo fáránlega lítið magn í þessu ógnarstóra dæmi að manni bókstaflega sundlar. Undirstöðulofttegund lífsins koldíoxíð veldur kannski eitthvað á bilinu 1-5% allra gróðurhúsaáhrifa, en það er raunar ekki einu sinni ljóst að þessi "aukning" (ef um raunverulega aukningu er að ræða) sé yfirleitt til staðar. Jurtirnar "éta" allt það koldíoxíð sem þær fá þannig að koldíoxíð getur ekki aukist að neinu marki. Annars legg ég til að þú lesir Þjóðmálagreinina "Að flýta ísöldinni", sem ég er nýbúinn að setja inn á vefsíðu mína.
Vilhjálmur Eyþórsson, 3.12.2009 kl. 18:22
Nennir maður að lesa grein eftir einhvern sem heldur fram að aukningin sé 0,01%? Til að hafa vit á hlutum verða menn að fara rétt með tölur.
Ég er hvorki með eða á móti í þessu máli. Það er sjálfgefið að við þurfum að fylgjast vel með loftslags og umhverfismálum jarðar, því við erum sannarlega að hafa mikil áhrif út um allt. Það er ekki bara rollan sem hefur étið og valdið uppblæstri, umhverfismálin eru flókin og þættirnir svo margir.
Gallinn við umræðuna er alveg sérstaklega áberandi þegar menn fara að skipa sér með eða á móti, svona eins og þegar þeirra fótboltalið á að vinna eða ekki.
Ólafur Þórðarson, 4.12.2009 kl. 03:18
Hitt er rétt að rannsóknir benda til þess að mikið kjötát sé heilsuspillandi og eigi þátt í æðakerfissjúkdómum seinna á æfinni. Ég hef þá skoðun að kjötát sé best í hófi og gagnlegast að auka sem mest grænmeti, kornmeti, ávexti og þar fram eftir götum, sérstaklega eftir sem maður eldist.
Hvað poppstjarna gerir er helst að láta bera á sér.
Ólafur Þórðarson, 4.12.2009 kl. 03:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.