Innbyggður galli í stjórnkerfinu

Framundan eru sennilega ein erfiðustu ár Íslendinga í marga áratugi eftir hrun bankanna. Ef maður fylgist með fréttum fær maður alls konar útskýringar allt frá því að þetta sé 1-2 mönnum að kenna upp í það að þetta sé bara hluti af heimskreppu sem nú ríður yfir. Þegar vinnubrögð og hugarfar sem hefur verið við lýði við stjórnun landsins undanfarin ár virðist það vera þannig að flokkapólitík sé ráðandi á kostnað gagnrýninnar hugsunar. Vinagreiðar og hreðjartak ráðherra á eftirlitsstofnunum virðast vera allsráðandi. Kosningakerfi okkar er auk þess byggt þannig upp að fólkið er ekki að kjósa um þá aðila sem raunverulega taka ákvarðanirnar. Í ljósi þess að hér ríkir mikið ráðherraræði á kostnað þingræðis eru landsmenn í mjög litlum mæli að kjósa um raunverulega stjórnendur landsins. Í stærstu kjördæmunum þarf fylgi stjórnmálaflokkanna að fara niður fyrir 5% til að efsti maður á listanum detti út og því þurfa efstu menn á listum stærstu flokkana í raun ekki að taka neina ábyrgð nema þeirra eigin flokksmenn snúist gegn þeim. Hverju fá kjósendur þá að ráða í raun? Í ljósi veikrar stöðu kjósenda og Alþingis er kominn augljós hvati til losaralegrar stjórnsýslu og þar af leiðandi veikra eftirlitsstofnana og lítill hvati til siðferðislegra viðmiða ráðamanna þar sem enginn þarf að axla ábyrgð. Meðan flokkurinn stendur saman er óhætt að halda áfram. Aðhald að ráðherrum og ríkisstjórn er því lítið og þeim því í lófa lagt að haga sér með óábyrgum hætti langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Það er því innbyggður hvati í stjórnkerfinu til gerræðislegra vinnubragða þar sem hagsmunir stjórnmálamanna ráða meiru en hagsmunir þjóðarinnar enda hefur það nú komið í ljós að veikar eftirlitsstofnanir og framganga ráðamanna hefur leitt þjóðina í gjaldþrot og þeir hafa það ekki einu sinni í sér að skammast sín enda þurfa þeir varla að taka neinum afleiðingum af þessum ósköpum. Í mínum huga ætti því markmið þjóðarinnar allrar að taka  upp gagnrýna hugsun óháð stjórnmálaskoðunum hvers og eins og krefjast þess að siðferði íslenskra stjórnmála og viðskiptalífs sé bætt og byggja þannig upp sterkt lýðræði og sterka stjórnsýslu sem vinnur fyrir fólkið í landinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er með sterka hugmynd um skilvirkara og lýðræðislegra stjórnkerfi sem umbyltir stjórnunarhætti landsins og aðskilur þrívaldið frá því einræði sem það í raun er í dag.

Ég á bara eftir að setja þetta niður og mun koma því á framfæri innan skamms. Gaman að sjá hvernig þér líst á það

Don Ellione (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 01:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband