16.6.2008 | 16:06
"traustur og sterkur gjaldmiðill"
Rakst á auglýsingu frá ónefndum aðila áðan og rak augun í að hann er í evrum. Ein setningin í auglýsingunni er "Séreign er í evrum sem er traustur og sterkur gjaldmiðill..."
Gott og vel, en fyrir hvern er hann sterkur og traustur? Fyrir íslending sem hefur tekjur og útgjöld sín í íslenskum krónum skiptir engu hversu stöðugur gjaldmiðill evran er. Ef krónan sveiflast upp og niður er evran ekki stöðug gagnvart krónunni, ekki frekar en krónan er stöðug gagnvart evru og hafa nýlegar sveiflur á gjaldeyrismarkaði sýnt fram á það. Ég hef ekki heyrt í neinum sem er með lán í evrum talað um að evran sé stöðug gagnvart krónunni.
Setningin er síðan botnuð með "...en það bendir flest til þess að evran muni styrkjast enn frekar"
Þessi setning er ósiðleg auglýsingabrella og ætti að vera ólögleg með öllu því það getur enginn sagt til um það hvort gjaldmiðlar eigi eftir að styrkjast eða veikjast í framtíðinni. Gengisvísitala krónunnar var nýlega 115 og töluðu greiningardeildir bankanna um að jafnvægisgildið væri um 130. Núna er gengisvísitalan 150 og mikil óvissa um framtíðargengi krónunnar. Meðan sumir segja að gengið eigi eftir að styrkjast segja aðrir að það eigi eftir að veikjast. Ég get ekki séð að flest bendi til að það eigi eftir að veikjast frekar en styrkjast. Óvissan í þessum efnum er mjög mikil um þessar mundir.
Svo kemur þessi klassíska setning í auglýsingunni "Séreign fyrir þá sem vilja hámarksávöxtun fyrir lágmarksáhættu"
Ég er búinn að vinna sem innkaupastjóri og hef því kynnst gengisáhættu. Sparnaður og skuldir í erlendri mynt og tekjur og gjöld í annari er einungis til þess fallið að skapa aukna áhættu, svo kallaða gengisáhættu. Hún virkar þannig að ef þú átt eign upp á 100 og gengið styrkist skyndilega um 30% þá lækkar eignin niður í 70. Það virkar eins ef þú skuldar 100 og gengið veikist um 30% þá hækkar skuldin upp í 130 eins og margir landsmenn eru að ganga í gegnum núna.
Allt tal um að eign og skuld í erlendri mynt sé til áhættuminnkunar er úr lausu lofti gripin ef tekjurnar eru í annari mynt. Þessi auglýsing er ábyrgðarlaus og til þess fallin að blekkja neytendur.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.