Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

ESB hefði ekki komið í veg fyrir núverandi vanda

Það má varla opna fjölmiðil án þess að tekið sé viðtal við einhvern sem vill í ESB. Þar er allt fallegt og fagurt, þar eru ekki vandamál og það afléttir allar okkar áhyggjur til framtíðar.

Ég er ekki sannfærður um að lífið sé svona einfalt að gera Ísland að fylki í evrópu eða ameríku leysi vanda okkar. Orsök okkar vandamála er ekki óheppni, tilviljun eða sjálfstæði þjóðarinnar. Bankarnir voru einfaldlega orðnir allt of stórir til að íslenski seðlabankinn gæti staðið á bakvið þá og þess vegna voru þeir staddir á brauðfótum. Þar á ofan eru bæði fyrirtæki og einstaklingar landsins almennt mjög skuldugir, miklu meira en eðlilegt getur talist. Þessi skuldsetning var notuð í neyslu og gerði íslendinga óhóflega viðkvæma fyrir efnahagsniðursveiflu. Ég sé ekki að það komi ESB neitt við að við vorum svona skuldsett. Það er bara kúltúrinn í þjóðfélaginu þó að ESB sinnar vilji halda öðru fram. Við hefðum lent í jafn miklum vandræðum innan ESB. Því til marks eru margar þjóðir innan ESB í miklum vanda bæði smáar þjóðir og stórar og er skemmst að minnast á frændur vora í Danmörku.

Það er mér til efs að við hefðum fengið mildari meðferð þó að við værum í ESB. Seðlabankar ESB og Bandaríkjanna vildu kenna íslendingum í eitt skipti fyrir öll að taka ábyrgð á eigin gjörðum og hvernig gott væri að haga fjármálum sínum. Hagsmunir seðlabanka ESB í þá áttina hefðu verið enn mikilvægari ef Ísland væri í ESB. Ekki vilja þeir hafa óráðssíufólk innan sambandsins. Þegar við þetta bætast svo kosningabarátta Brown og stórfelld mistök í efnahagsstjórn landsins þarf ekki lengur að kenna óheppni um vandamál okkar.

Sumir gætu sagt að ef við værum í ESB værum við ekki með krónuna. Vissulega væri gjaldmiðillinn ekki gjaldþrota og erlendu íbúðalánin hefðu ekki hækkað um 100% á einu ári. En þá hefði landið líka verið enn skuldugra því vextirnir hefðu áfram verið lágir þrátt fyrir ofneysluna og heimilin getað skuldsett sig meira. Það er nú þannig að fólkið skuldsetur sig þannig að það rétt geti borgað reikningana sína. Eins og félagi minn sagði, "þegar ég loksins sé ljósglætu í fjármálunum er ég fljótur að taka nýja raðgreiðslu til að slökkva ljósið". Ég held að þetta sé ómeðvitaður hugsunarháttur margra og kemur það í bakið á okkur núna og það er alveg óháð ESB. Verðtrygging er þáttur sem ég heyri líka varðandi ESB en verðtrygging er séríslenskt fyrirbæri. En við getum alveg sleppt verðtryggingu þó að við séum ekki í ESB. Ég veit ekki til þess að Kína, Sviss eða Noregur séu í ESB en samt er engin verðtrygging þar. Þetta er því einungis pólitísk ákvörðun hvort við höfum verðtryggingu eða ekki.

Þó að við göngum í ESB höldum við áfram efnahagslegu sjálfstæði okkar að hluta og ég sé ekki að við myndum læra mikla hagfræði við það eitt að ganga í ESB. Sumir hafa haldið því fram að það sé betra að láta þingmenn annara landa setja lög um ísland. Það er nú meiri uppgjafaþingmaðurinn sem gefur það í skyn og gjaldfellir þar með eigin trúverðugleika og dregur svo í efa eigið ágæti að hann ætti hið snarasta að hætta afskiptum af stjórnmálum því hann hefur lýst vantrausti á sjálfan sig.

Innan eða utan ESB, með sjálfstæðan eða utanaðkomandi gjaldmiðil höfum við sjálf komið okkur í þau vandræði sem við erum í. Ekki gjalmiðillinn sem slíkur, óheppni, tilviljun eða óvinveittir erlendir aðilar.


mbl.is Endurtaki sig aldrei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta bankarán sögunnar

Enginn er annars bróðir í leik. Það sannast á þessu máli þar sem Gordon Brown náði að losa sig úr eigin hengingaról og herða hana að Kaupþingi. Hann hafði enga ástæðu til að ætla að fjármunir Icesave yrðu ekki greiddir en telur þess í stað ástæðu til að baða sig í fjölmiðlaljósi vígreifur gegn íslenskum víkingum sem fara ránshendi um sparifé breta. Það þarf ekki að hugsa sig lengi um hvaða hagsmuni Brown er að verja en það eru hans eigin. Það er ekki langt í kosningar og Brown er að tapa þeim áður en kosningarbaráttan hefst. Hann var heppinn að vera ekki rekinn af eigin flokki nýlega og er búinn að horfa á hrun flokksins hvað eftir annað í kosningum og skoðanakönnunum.

Hann fékk því kærkomið tækifæri að finna sökudólg í lítilli vinalausri þjóð sem allir hafa snúið baki við. Líklega er þorskastríðið honum líka í fersku minni og ekki leiðinlegt að ná fram síðbúnum hefndum á þessari ránþjóð. Þjóð sem seðlabankar Bandaríkjanna, evrópu og Bretlands brugðust á ögurstundu. Líklega hafa þeir ætlað að kenna sigurvegurum kapítalismans lexíu fyrir hagfræðinga framtíðarinnar en núna bítur sú ákvörðun í skottið á þeim. Þegar menn horfa á heilt hagkerfi fara á hliðina eykst bara svartsýnin á markaðnum og eykur á kreppuna og hlutabréf falla sem aldrei fyrr og enn fleiri bankar eru lentir í vandræðum en áður.

Beiting hryðjuverkalaga á íslenskan banka getur þó verið tvíbent sverð í höndunum á Brown. Í fyrsta lagi voru margir sem óttuðust að þessi lög yrðu misnotuð sem núna hefur orðið að veruleika og eykur á gagnrýni þeirra. Í öðru lagi hefur Brown með þessu upphlaupi ráðist á heila þjóð og sett eina íslenska bankann sem stóð í báðar fætur á hausinn með þeim afleiðingum að fjöldi fólks bæði í Bretlandi og á Íslandi missir vinnuna og enn fleiri tapa gríðarlegum fjármunum. Brown hefur því með þessu kosningabragði rænt fjöldann allan af eigin þegnum, fyrirtækjum, líknarfélögum og sveitarfélögum bæði starfi, æru og gríðarlegum fjármunum til að upphefja sjálfan sig.

Ef að breska pressan er ekki eins andvaralaus og íslenskir fjölmiðlar og kafa ofaní upphlaup Brown og vindi ofan af þessum föðurlandssvikum hans gagnvart Bresku þjóðinni verður það til þess að þetta verður hans banabiti í Breskum stjórnmálum.


mbl.is Guðni Ágústsson: Kærum Bretana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

4,8 milljónir í mánaðarlaun

Mig vantar varahlut í bílinn minn. Í staðinn fyrir að fara á augljósa staðinn af því að ég er latur að eðlisfari ákvað ég að vera duglegur og tékka á verðinu á fleiri stöðum. Ég var 5 mínútur í símanum og fékk sama hlutinn 1.500kr ódýrara en ég hefði fengið hann án þess að fara í símann (fyrir utan styttri akstur með tilheyrandi bensín og tímasparnaði). 1.500kr á 5 mínútum jafngildir 18.000kr á klst eftir skatt eða ca 3.060.000kr eftir skatt á mánuði m.s. 170 tíma vinnuviku. Það jafngildir ca 4,8milljónum á mánuði fyrir skatt.

Gott tímakaup það


Og hvað með það?

Ég hef aldrei skilið þessa hækkunarvísitölu. Það skiptir veskið mitt ekki neinu máli hver hækkar og hver lækkar heldur hvað karfan kostar. Það er auðvitað nauðsynlegt að fylgjast með því hvernig verðlag þróast en þessi verðbreytingarvísitala segir mér afar lítið ef könnunin sýnir ekki hvað varan kostar. Ég býst við því að þeir sem hafi lægstu álagninuna hafi minni tækifæri á að taka á sig verðhækkanir og því er rökrétt að lágvöruverslanir sem eru með lága álagningu neyðist til að hækka meira en verslanir sem hafa meiri álagningu.

Þessi könnun segir mér því afar lítið annað en að verðlag er að hækka en það dugar mér að fylgjast með verðbólgutölum til þess. Það myndi gagnast mér betur að sjá samanburð á hvað karfan kostar í hverri búð fyrir sig heldur en hvað þær hækka milli mánaða.


mbl.is Bónus hækkar mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"traustur og sterkur gjaldmiðill"

Rakst á auglýsingu frá ónefndum aðila áðan og rak augun í að hann er í evrum. Ein setningin í auglýsingunni er "Séreign er í evrum sem er traustur og sterkur gjaldmiðill..."

Gott og vel, en fyrir hvern er hann sterkur og traustur? Fyrir íslending sem hefur tekjur og útgjöld sín í íslenskum krónum skiptir engu hversu stöðugur gjaldmiðill evran er. Ef krónan sveiflast upp og niður er evran ekki stöðug gagnvart krónunni, ekki frekar en krónan er stöðug gagnvart evru og hafa nýlegar sveiflur á gjaldeyrismarkaði sýnt fram á það. Ég hef ekki heyrt í neinum sem er með lán í evrum talað um að evran sé stöðug gagnvart krónunni.

Setningin er síðan botnuð með "...en það bendir flest til þess að evran muni styrkjast enn frekar"

Þessi setning er ósiðleg auglýsingabrella og ætti að vera ólögleg með öllu því það getur enginn sagt til um það hvort gjaldmiðlar eigi eftir að styrkjast eða veikjast í framtíðinni. Gengisvísitala krónunnar var nýlega 115 og töluðu greiningardeildir bankanna um að jafnvægisgildið væri um 130. Núna er gengisvísitalan 150 og mikil óvissa um framtíðargengi krónunnar. Meðan sumir segja að gengið eigi eftir að styrkjast segja aðrir að það eigi eftir að veikjast. Ég get ekki séð að flest bendi til að það eigi eftir að veikjast frekar en styrkjast. Óvissan í þessum efnum er mjög mikil um þessar mundir.

Svo kemur þessi klassíska setning í auglýsingunni "Séreign fyrir þá sem vilja hámarksávöxtun fyrir lágmarksáhættu"

Ég er búinn að vinna sem innkaupastjóri og hef því kynnst gengisáhættu. Sparnaður og skuldir í erlendri mynt og tekjur og gjöld í annari er einungis til þess fallið að skapa aukna áhættu, svo kallaða gengisáhættu. Hún virkar þannig að ef þú átt eign upp á 100 og gengið styrkist skyndilega um 30% þá lækkar eignin niður í 70. Það virkar eins ef þú skuldar 100 og gengið veikist um 30% þá hækkar skuldin upp í 130 eins og margir landsmenn eru að ganga í gegnum núna.

Allt tal um að eign og skuld í erlendri mynt sé til áhættuminnkunar er úr lausu lofti gripin ef tekjurnar eru í annari mynt. Þessi auglýsing er ábyrgðarlaus og til þess fallin að blekkja neytendur.


Meira fyrir minna

Verðlagnin fyrirtækja tekur stundum á sig skrýtnar myndir. Ég fór í Nóatún fyrir nokkrum mínútum og ætlaði að gæða mér á daim stykki. Þar sá ég girnilegan 3ja eininga pakka en varð á að líta á verðið áður en ég greip stykkið og fannst það dýrt. En við hliðina var 2ja eininga pakki sem var meira en helmingi ódýrari. Það var sem sagt hægt að kaupa tvo svoleiðis og fá þannig 4 stykki daim sem kostaði minna en einn 3ja stykkja daim pakkinn.


Af hverju er alltaf verið að ráðast á Bónus

Flestar vörur sem ég kaupi eru ódýrari í Bónus en nokkuri annara búð enda versla ég oft þar. Af hverju gera menn ekki athugasemdir við verðlag í búðum eins og 11/11 og Nóatúni eða bensínstöðvunum. Ef Bónus býður lægsta verðið þá eru þeir að standa sig best.


mbl.is Bleyjurnar hækkuðu verulega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilboðslán

Sá auglýsingu um tilboðslán á mbl.is fyrir stundu. Hvað ætli felist í tilboðsláni hugsaði ég með mér um leið og ég smellti á auglýsinguna.

17,2%

Ekki þykir mér það nú merkilegir vextir og ekki gott tilboð. Vextir eru aukagjald sem fólk borgar fyrir það sem það kaupir. Það er alveg sama hvað það er, bíll, hús, sjónvarp, tölva, fellihýsi, sumarbúastaður eða hvað það er. Ef það er tekið að láni eða á raðgreiðslu er verið að borga meira sem nemur vöxtunum.

Ef þú setur jólagjafirnar, afmælisgjöfina, nýja sjónvarpið eða tölvuna á raðgreiðslu ertu líklega að borga 18,25% vexti auk 2% í lántökugjald skv heimasíðu Valitor. Þar fyrir utan koma færslugjöld á hvern mánuð. Algengt er að kostnaðurinn sé vel yfir 20% og það er meira að segja kostnaður þó að það séu vaxtalausar raðgreiðslur. Þetta þýðir einfaldlega að þú ert að borga 20% meira fyrir vöruna en þú þarft bara vegna þess að það má ekki bíða.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband