Helgarsteikin

Ég á ekki að vera að blogga og ég á heldur ekki að vera vakandi. Ég er samt vakandi og samt að blogga. Ég er búinn að gera ýmislegt í dag sem ég hefði ekki átt að gera. Eitt af því var að fara og keppa eins og einn knattspyrnuleik með félögum mínum.

Eftir að vera búinn að hanga inni alla síðustu viku og skrifa þessa annars ágætu lokaritgerð mína þá er ég að ærast úr hreyfingaleysi. Annar endinn á mér er farinn að gróa við stólinn og fingurnir við lyklaborðið. Hausinn á mér er eins og nýsoðinn grjónagrautur, rjúkandi með rúsínum og kanil. Mér líður eins og mosóttum steini sem hefur legið á sama stað frá landnámsöld. Ég er kominn með legusár og hausverk og það ískrar í mér þegar ég reyni að hugsa eða hreyfa mig.

Ég kom eins og frummaður á leikinn. Kominn inn í nýjan heim og ekki séð útið síðan ég bara man ekki hvenær. Órakaður og óklipptur með ofbirtu í augunum staulaðist ég stirðbusalegur út á völlinn. Dómarinn fylgdist með hverju fótspori efins eins og hann væri að hugsa hvort ég hefði ekki villst af einhverju hæli. En um leið og flautan gall þá rankaði ég við mér, frummaðurinn tók öll völd og ég hljóp á eftir tuðrunni eins og ég hefði fæðst til þess. Ausandi rigningin vökvaði skrælnaða húðina og fljótlega hætti ég að heyra brakið í líkamanum sem allur var að koma til.

Þvílík unaðstilfinning að vera úti, finna regnið hreinsa loftið, heyra fuglana syngja og finna grasilminn sem lagði yfir. Mér líður eins og vori. Því miður var þetta aðeins stutt gaman því ég er sestur aftur við tölvuna og tekinn við að skrifa en regnið og loftið er búið að hreinsa hugann og mosinn er horfinn. Ég get heyrt mig hugsa og ég er orðinn skegglaus og núna ganga skrifin betur fyrir sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn Hafliðason

Hverjum datt þessi fyrirsögn eiginlega í hug?

Steinn Hafliðason, 12.5.2008 kl. 01:33

2 Smámynd: Anna Sigga

já lyktin af gervigrasinu var unaðsleg Steinn ;)

Gott að þú gast hreinsað illgresinn huga þinn fyrir áframhaldandi skrif :) verst að seta mín á bekknum hefur ekki sömu áhrif á próflestur minn sem er í miklum ... ólestri :P

Gangi þér vel kæri vinur!

Glory, glory man utd :) og umfg :D

Anna Sigga, 12.5.2008 kl. 11:42

3 Smámynd: Steinn Hafliðason

Til hamingju með titilinn. Haltu áfram að lesa, þú hefur sýnt það áður að þú getur gert ótrúlega hluti þegar þú nærð einbeitingu.

Gervigraslyktin er góð

Steinn Hafliðason, 12.5.2008 kl. 12:21

4 Smámynd: Tinnhildur

Frekar steikt fyrirsögn

Tinnhildur, 12.5.2008 kl. 22:56

5 Smámynd: Steinn Hafliðason

Já hún hefði frekar átt að vera helgarsteiktur. Ég er ekki alveg viss um hvað ég var að hugsa þegar ég setti hana fram en þetta átti að vísa í að vera "steiktur" (í hausnum) en ekki í einhverja steik

Steinn Hafliðason, 13.5.2008 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband