Heppnisferð

Átti erindi á Selfoss í dag en óraði ekki fyrir því hvernig það átti eftir að fara. Lagði af stað í rigningu Reykjarvíkurmegin og venjulega skrifstofulega klæddur á toyotunni minni gömlu góðu.

Síðan varð ég næstum út þar sem ég þurfti að taka bensín á Litlu Kaffistofunni því veðrið var ógeðslegt, ísköld rigningarslydda og minn maður einungis í jakkafötum. Keyrði síðan áfram og lenti í krapforarpytti í skíðaskálabrekkunni en þar missti ég skyndilega allt vald á bílnum sem skautaði yfir á öfugan vegarhelming, yfir eina stikuna, dansaði lengi á vegaröxlinni en á endanum stakkst bílinn niður og stöðvaði á kafi í snjó. Til allrar hamingju var mikill snjór í brekkunni því annars hefði ég klárlega oltið þarna niður og enn heppnari var ég að það var enginn bíll að koma á móti mér þegar bíllinn skautaði stjórnlaust á veginum.

Mér var eðlilega brugðið og rifjaði upp öll helstu umferðaróhöpp sem ég hef lent í eða orðið vitni að. Ég er alinn upp í sveitinni og oft þurft að keyra langar vegalengdir við ýmsar aðstæður s.s. í snjó, krapa og hálku og hef mikla reynslu. Ég hef þó aldrei upplifað slíkt skaut þar sem bíllinn einfaldlega flýtur upp af malbikinu og skautar eins og stjórnlaus snjóþota.

Meðan ég horfði á snjóruðningsbíla bruna hjá velti því fyrir mér hversu heppinn ég var og hvernig þetta gerðist allt saman sá ég annan bíl snarsnúast á veginum rétt ofar og sá var enn heppnari en ég. Hann stoppaði á öfugum vegarhelmingi og á eftir honum var flutningabíll. Ef hann hefði stöðvað á eigin vegarhelmingi hefði flutningabíllinn straujað bílinn.

En þar sem við búum í svo stórkostlegu samfélagi þá leið ekki á löngu þar til tveir bílar stoppuðu og mér var veitt aðstoð við að komast upp á veginn. Það tókst ekki betur til en svo að jeppinn dróst bara sjálfur ofaní brekkuna og þurftum við því orðið tveir aðstoð frá félaga jeppaeigandans úr bænum. Á endanum vorum við dregnir upp og kann ég þessum félögum miklar þakkir fyrir. Því miður kann ég ekki nöfnin þeirra annars myndi ég birta þau hér.

En lærdómurinn af ferðinni:

1. Kíkja á færðina á vegagerd.is áður en lagt er af stað yfir heiðina

2. Hafa góðan hlífðarfatnað með ef eitthvað fer úrskeiðis

3. Hafa skóflu og spotta í bílnum

4. Keyra á bíl sem er í samræmi við aðstæður

5. Keyra í samræmi við aðstæður þó svo að enginn annar geri það


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigga

Í guðanna bænum Steinn viltu fara varlega. Þetta var nú meiri sagan. Ég er alltaf í stöðugu sambandi við vinkonu mína á vegagerðinni, á vegagerdin.is eða hann föður minn sem ræður mér heilt. Ég eins og þú keyri mjög oft langar vegalengdir við allar mögulegar aðstæður frá Vestfjörðum til Uppsveita Árnessýslu á Polonum mínum, með yfirfullan bíl af hlífðarfötum, nokkur pör af aukaskóm, mat og spil, hljóðbækur og spotta o.s.frv.  enda getur þetta ferðalega tekið frá 5 klst uppí 10, það þarf ekki mikið að bregðast til að telja tímana.

En gott að þú slappst ómeiddur og við umferð úr gagnstæðri átt. og góður lærdómur

Anna Sigga, 21.2.2008 kl. 14:04

2 Smámynd: Steinn Hafliðason

Þakka þér fyrir Anna Sigga. Það er gott að vera rasskelltur við svona kæruleysi, þetta sýnir að maður má aldrei gleyma sér.

Ég hef ég það eftir vitni að það hafi fjöldi bíla farið útaf um kaffileytið í gær upp á Hellisheiði.

Steinn Hafliðason, 21.2.2008 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband