12.1.2008 | 22:52
Þegar barnið nær að brjótast út
Á hlaupabraut lífsgæðakapphlaupsins gefst ekki alltaf tóm fyrir fjölskylduna. Stanslaus vinna og nám taka því miður allan minn tíma núna á meðan konan og barnið bíða á hliðarlínunni eftir að hægist á kapphlaupinu í vor þegar ég útskrifast. Maður hefur heldur ekki tíma fyrir vini né áhugamál og ekki laust við að daglegt brosið víki stundum fyrir einbeitingarsvip og þreytu.
Það var mér því mikið gleðiefni og dýrmæt stund eftir ofsalegan lífsgæðasprett í þessari viku að fara í nokkura mínútna fótboltaleik með 4ja ára syni mínum. Barnið í mér blómstraði og við veltumst um gólfin af hlátri og leik. Veltum kertastjökum og jólaskrauti um koll í látunum svo að það lá við skömmum frá betri helmingnum. Síðan voru tennurnar burstaðar og lesin saga fyrir svefninn.
Þetta eru dýrmætu stundirnar í lífinu. Þessi litli hálftími er búinn að bjarga fyrir mér vikunni og gefa mér svo dýrmæta minningu og tíma með syni mínum. Það vottaði hvorki fyrir þreytu né einbeitingu í andliti mínu yfir námsbókunum í kvöld heldur er ég búinn að flissa og brosa eins og það væri eitthvert kitlandi í maganum á mér.
Við skulum ekki gleyma gullnu augnablikunum með fjölskyldunni þrátt fyrir annríki.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.