6.12.2007 | 20:34
Hvar finnur maður alvöru jafnréttisumræðu?
Undanfarnar vikur hafa umræður um feminista tröllriðið íslensku samfélagi. Því miður eru það ekki umræður um jafnrétti heldur kynleysi, sandkassaslagsmál og svívirðingar frá feministum og þeirra sem finnst þeim ógnað af feministum.
Feministar telja sig vera höfuðtalsmenn jafnréttis og sýnist sitt hverjum. Orðið eitt og sér ber þó ekki með sér jafnréttislegan blæ. Feministi er eitthvað sem er kvenkyns eitthvað. Alveg eins og stórmál Steinunnar Valdísar um að ráðherra væri eitthvað karlkyns. Ég get tekið undir bæði sjónarmið.
Það segir meðal annars á heimasíðu feministafélagsins að stefna þess sé að "bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns. Að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum." Þar eru fleiri mál reifuð og sum mjög góð. Mér þykir þessi þó bera með sér frekar kvenlega baráttu enda eru mál kvenna iðulega í umræðunni.
Ég ræddi nýlega við 16 ára stúlku um launin hennar og við fórum að tala um laun kvenna og karla. Hún hafði lært í félagsfræði að laun kvenna væru x mörg prósent lægri en karla eins og um óbrjótanlegt lögmál væri að ræða. Ég messaði yfir henni að hver sem er gæti fengið hvaða laun sem er óháð kyni. Það væri miklu frekar sjálfstraust fólk sem hefði meiri áhrif á laun fólks. Ég velti því fyrir mér í framhaldinu hvort launaumræðan viðhéldi launamismuninum. Launamunurinn er orðinn svo "venjulegur" í þjóðfélaginu að fólk er hætt að taka eftir því.
Á meðan þessi stúlka eins og svo margar aðrar töldu að hún gæti ekki fengið hærri laun þá voru helstu málefni feminista að neita að koma fram í einum vinsælasta umræðuþætti landsins, fárast út í afþreyingarhorn í Hagkaup og mótmæla fatalitum á nýfæddum börnum.
Mátti skilja að það væri búið að ráða örlögum barnanna aðeins nokkrum klukkustundum eftir fæðingu þeirra og sökudólgurinn væri sjálfur heilbrigðisráðherra. Það vill svo til að feministar gera mikið úr bleika litnum og kvenréttindaliturinn er bleikur. Ég veit ekki hvort heilbrigðisráðherra er bleikur feministi en hann vildi ekki viðurkenna að hann væri uppspretta launamuns kynjanna.
Ég tel landsmenn almennt vera á þeirri skoðun að jafnrétti eigi að ríkja og af og til heyri ég uppbyggjandi umræður um þetta málefni. EN...það er þreytandi og niðurlægjandi fyrir konur að heyra stöðugt að þær þurfi sérstaka prinsessumeðferð til að standa jafnfætis karlmönnum í þjóðfélaginu en það eru stöðug skilaboð sem koma ekki síst frá feministum. Drullukast út í Silfur Egils hefur stórskaðað málstað jafnréttis og umræðan um fatnað smábarna gert málstaðinn að aðhlátursefni.
Sjálfur félagsmálaráðherra sem er með frambærilegustu stjórnmálakonum landsins setur þó tóninn því ekki hafði hún það í sér að jafna rétt kynjanna í jafnréttisráði. Það er í anda feministahreyfingarinnar að tala í jafnréttisfrösum en ráða svo fleiri konur þegar þær fá völdin eins og þetta dæmi sannar.
Ég auglýsi eftir ábyrgri jafnréttisbaráttu sem er laus við fordóma og byggir á staðreyndum og áhuga á jafnvægi í þjóðfélaginu í heild sinni. Ég hvet fólk, konur, karla og feminista til að hætt að kasta bleikum drullukökum í heilbrigðisráðherra og Egil Helgason eða einhverja ómerkilega hluti og fara að einbeita sér að jafnrétti svo dætur og synir, bræður og systur, mæður og feður standi jafnfætis í þjóðfélagi okkar allra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 10:27 | Facebook
Athugasemdir
Sæll bloggvinur ég tek undir flest í þessari grein þinn.
Með bestu kveðju
Sigurjón
Sigurjón Þórðarson, 7.12.2007 kl. 10:00
Góður að vanda, kallinn minn.
Guðjón Guðvarðarson, 7.12.2007 kl. 22:09
Sko hver og ein manneskja verður bara biðja um þau laun sem henni finnst hún eiga skilið. Ef hún telur sig eiga skilið minni laun en jafningi hennar, þá verður sú manneskja að setjast niður og eiga það við sjálfan sig. Konur eru alveg jafn færar að klást við þetta og aðrir. Þeir sem eru í vafa hvaða laun þeir eiga að biðja um geta notað reiknivélina á vr.is til að miða sig við.
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 8.12.2007 kl. 02:58
Ég er nú búinn að vera á vinnumarkaðnum meir og minna í 44 ár, ég hef aldrei fengið þau laun sem mér finnst ég eiga skilið, sama hvað ég hef tuðað, og... það sem verra er það er fullt af fólki sem miklu hærri laun en það á skilið.
Ég er td. alveg klár á að það greiðir mér enginn krónu fyrir að hætta í starfi, jafnvel þó svo ég hafi ekki staðið undir væntingum.
Og ég verð nú bara að segja það að litlar 60 milljón krónur er bara upphæð sem ég skil ekki svona yfir höfuð, hvað þá í sambandi við laun.
Launa og jafnréttisbarátta er ekkert einfalt mál, afgreitt með fjögurra lína málsgrein, svo einfalt er lífið nú ekki.
Ég held að það sé hollt hverjum einum sem stendur í baráttu fyrir einhverju að gera greinamun á félagsstarfi og félagslífi annars vegar og markvissri baráttu hins vegar. Það getur verið gaman á fundum og við hátíðleg tækifæri að ropa hátt, pota sér í ahrifastöður, láta ljós sitt skýna, kynda undir athyglissýki sinni, en... það skilar litlum árangri í því sem barist er fyrir. Sennilegat er rétt hjá Nönnu með að ef eistaklingur ætlar að ná sér í meiri pening fyrir næstu klukkustund er rétt að biðja bara um það, en þegar til lengri tíma er litið og í víðara samhengi þe. önnur kjör, verður að vinna öðru vísi.
Ég held að þeir sem ætla að ná sínu fram geri eftirfarandi:
Setjist niður og geri áætlun.
Hvert er markmiðið?
Svo kemur ýmisleg útlistun á aðferðum misjafnlega útsmognum, og mörg önnur "plön"
Hvernig svo sem menn framkvæma hlutina, þá leggja menn að sjálfsögðu af stað með að ná markmiðinu með einum eða öðrum hætti, og...þar er að sjálfsögðu ekki veittur neinn afsláttur. Ég á við, ætla að ná xx, grunar að verði farið fram á afslátt um eitt x þá bið ég um xxx eða eftir atvikum held andlitinu og stend á mínu.
Niðurstaða: Berjast fyrir því sem skiptir máli, gera sig ekki að fífli með smáborgaralegum tittlingaskít.
Guðjón Guðvarðarson, 8.12.2007 kl. 10:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.