16.9.2007 | 11:08
Er hagvöxtur það eina sem skiptir máli?
Rakst á frétt í Blaðinu í dag þar sem prófessor Paedar Kirby talar um misskiptingu auðs á Írlandi og félagslegar afleiðingar þess.
Það sem hann er í raun að segja er að hagvöxtur er einungis hluti af þjóðfélaginu en ekki forsenda þess. Rannsóknir hafa sýnt að ríkidæmi skapar ekki hamingjuna, það eru aðrir þættir s.s. góð heilsa, andleg og líkamleg, gott sjálfstraust, öryggi o.fl. Þessir þættir hanga óneitanlega saman t.d. heilsa og fjárhagur. Allir þessir þættir spila saman á flókinn hátt og mynda það þjóðfélag sem við lifum í. Það má eiginlega segja að hlutverk þingmanna og ráðherra sé að hámarka hamingju þjóðarinnar til lengri og skemmri tíma.
Við verðum samt að fara eftir lögmálum hagfræðinnar m.a. til að hafa sterkan efnahag í landinu en það er einn af (ekki sá eini) grunnþáttum þjóðfélagsins. Hagfræðin byggir samt á stærðfræðilegum módelum framboðar og eftirspurnar. Kirby bendir á að aukin misskipting í þjóðfélaginu komi m.a. fram í aukinni notkun fíkniefna, aukinni tíðni sjálfsvíga og fleira.
Ætli við Íslendingar séum á sömu villigötum og írar? Að við séum svo upptekin af efnahag okkar að öfund og sjálfsýmind meðaljónsins og þeirra verst settu séu farnir að draga úr þjóðfélagslegu heilbrigði okkar.
Okkur hættir við að gleyma því að við lifum ekki í fullkomnum heimi. Það er oftast mikill munur milli heimsins eins og við viljum að hann sé og hvernig hann er. Líf okkar byggist á tilfinningum og við högum okkur samkvæmt því. Það er nú þannig að öðru hverju öfundumst við út í náungann þó að fæsti vilja viðurkenna það. Af hverju eru jú flestir að keppa við nágrannan um efnahagsleg gæði hér á íslandi? Öfund og afprýðisemi er hluti af þjóðfélaginu hvort sem við viljum eða ekki og þingmenn verða að taka tillit til þess þegar efnahagslegar ákvarðanir eru teknar.
Athugasemdir
Við sveitamennirnir fengum þá forgjöf að þurfa daglega að takast á við hin ýmsu og óliíku verkefni. Ein vænlegasta leiðin til þroska er að gangast undir ábyrgð á eigin verkum. Uppeldi í búrum samfélagsins leiðir af sér ákveðna fötlun einstaklinganna og gildir þá næstum einu þó gæslumenn búranna leggi sig alla fram.
Þegar síðarnefndir einstaklingar verða að takast á við óbilgjarnar kröfur samfélagsins sem hagvöxturinn knýr áfram, finna þeir sig gjarnan vanburða. Auðveldasta leiðin, flóttinn verður þá fyrir valinu oftar en skyldi. Sum ungmenni klóra sig áfram í þessu sturlaða kapphlaupi með því að sækja sér bakland í efnahag foreldranna en við það hækkar þroskastigið mjög takmarkað.
Gildismat stjórnmálamanna og þar með samfélagsins alls er orðið sjúkt. Þegar hugtakið virðing fær viðmiðun í auðævum og ytri glæsibrag lífshátta hefur orðið mikið slys á innviðum mannlífsins.
Árni Gunnarsson, 24.9.2007 kl. 16:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.