Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Herra öfugsnúinn

Ég er Herra Öfugsnúinn. Ég fékk mér enga rjómabollu á bolludaginn og borðaði ekki á mig gat um jólin. Ég borða lítið páskaegg um páskana. Samt er ég ekki hófsmaður. Þvert á móti er ég óhófsmaður þegar kemur að góðum mat, sætindum og gosi. Ef ég myndi hætta að fá mér kók og prins myndi þjóðarframleiðslan dragast merkjanlega saman.

Það er einhvern veginn þannig að þegar allir í kringum mig missa sig í ofáti og óhollustu að þá fer ég að hugsa um alla þá ofgnótt sem við neytum. Ég fer að hugsa um hvað við eigum það gott og hvað við förum illa með það heilsusamlega umhverfi sem við lifum í. Í staðinn fyrir að vera heilsusamlegasta þjóð í heimi erum við einhvern vegin ein af óheilsusamlegustu þjóðum heims. Stór hluti þjóðarinnar er of feitur en við höfum nóg af heilsusamlegu fæði. Við höfum bestu vísindalegu þekkinguna á hollu mataræði en samt er þjóðin of feit. Við höfum bestu líkamsræktaraðstöðurnar en samt er þjóðin of feit.

Nú gætu þeir sem til mín þekkja fussað yfir því að ég ætti að líta mér nær því ég kemst ekki fyrir á eigin spegli. Tilgangurinn með þessari hugleiðingu er heldur ekki að ásaka neinn um neitt. Heldur aðeins að vekja velta fyrir mér vandamáli sem á eftir að skapa gríðarlegt heilbrigðisvandamál í framtíðinni fyrir þjóð sem hefur allt til að koma í veg fyrir offituvandamál.

 


Saklaus reykingarmaður

Ég stóð nýlega út á svölum og naut veðursins, horfði á mannlífið í hverfinu og slakaði á. Þar sá ég unga móðir vera að rugga syni sínum í svefn út í garði með sígarettu í munninum. Hún var kannski ekki meðvituð um það sjálf, en hún púaði reyknum stöðugt yfir barnavagninn meðan krakkinn grét sig í svefn. Saklaus reykingamaður þar á ferð sem fékk litlu ráðið um eigin hag.
mbl.is Reykingar með börn í bíl er „ofbeldi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sykurskattur

Hugtakið að skattleggja óæskilega vöru fyrir þjóðfélag er mjög vel þekkt hugtak í hagfræðinni. Skattlagning á gróðurhúsalofttegundir, áfengi og eldsneyti eru flestir meðvitaðir um. Dæmi eru um skattlagningu sykurs s.s. hjá dönum sem skattleggja sykur til að neyslustýra þeirri óæskilegu hegðun sem felst í miklu sykuráti. Ég trúi því varla að nokkur aðili ætli að halda því fram að meðalsykurneysla íslendinga leiði ekki af sér heilsufarsvandamál.

Ég sé fyrir mér að skattlagning framtíðarinnar hvort sem hún kemur frá hægri eða vinstri felist einmitt í sköttum á óæskilegri hegðun s.s. mengun og vörur sem valda samfélagi kostnaði. Mikil neysla á sætum og feitum mat er mikið heilsufarsvandamál í hinum vestræna heimi og er Ísland þar engin undantekning. Víða er t.d. farið að setja strangari reglur um feitan mat á matseðlum veitingastaða og er það engin furða. Það væri eðlilegt að stýra neyslu þessarar óhollustu, það er ekki eins og að fólk viti ekki að þetta sé óhollt fæði en samt er henni neytt sem aldrei fyrr.

Skattur á óæskilega neyslu er líka sanngjarnari skattur en flatur skattur á alla þar sem fólk hefur yfirleitt val hvort það þurfi að borga óæskilega neysluskattin þ.e. það getur valið á milli vara sem eru skattlagðar og þeirra sem eru ekki skattlagðar s.s. að drekka ávaxtasafi, mjólk eða vatn í staðinn fyrir sykraðan gosdrykk. Þá borga þeir skatt sem valda þjóðfélaginu kostnaði en ekki hinir sem valda ekki kostnaði.


Ég styð Ögmund heilshugar með sykurskatt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband